Landssamtökin Þroskahjálp hafa í samvinnu við sjö önnur félagasamtök, hrint af stað undirskriftasöfnun þar sem stjórnvöld eru hvött til að fella sálfræðiþjónustu nú þegar undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands.
Með undirskrift tekur einstaklingur undir þá kröfu að sálfræðiþjónusta verði veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta. Auk Þroskahjálpara standa að undirskriftasöfnuninni, ADHD samtökin, Barnaheill - Save the Children á Íslandi, Einhverfusamtökin, Einstök Börn, Sjónarhóll - ráðgjafarmiðstöð, Tourette-samtökin á Íslandi og Umhyggja - félag langveikra barna.
Sálfræðiþjónusta er í dag undanskilin almennri greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Vaxandi fjöldi fólks er með geðraskanir eða greinist með önnur andleg veikindi en aðgengi að þjónustu fyrir þennan hóp er takmarkað og kostnaður vegna hennar mörgum ofviða. Þetta hefur margvíslegar alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið allt.
Samkvæmt lögum nr. 74 frá 1997 um réttindi sjúklinga, er óheimilt að mismuna sjúklingum á grundvelli efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Í sömu lögum segir að sjúklingur eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita. Sömuleiðis á sjúklingur rétt á þjónustu sem miðast við ástand hans og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ er á.
- Sálfræðiþjónusta er veitt af sálfræðingum sem starfa sjálfstætt og á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum auk þess sem sálfræðingar eru starfandi á vegum skóla og fleiri aðila.
- Aðgengi að sálfræðingum sem starfa innan opinbera heilbrigðiskerfisins er takmarkað og biðtími eftir þjónustu nokkuð langur, þó bráðatilvikum sé yfirleitt sinnt strax.
- Einstaklingar sem þurfa á þjónustu sálfræðings að halda þurfa því oftast að leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga og standa straum af þeim kostnaði sjálfir.
- Sjúkratryggingar taka almennt ekki þátt í kostnaði vegna sálfræðiþjónustu hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum og greiða sjúklingar þá þjónustu að fullu.
Forsenda niðurgreiðslu Sjúkratrygginga er að fyrir liggi tilvísun þverfaglegs greiningarteymis heilbrigðisstarfsmanna sem gert hefur samning um slíkar greiningar við velferðarráðuneytið og að sálfræðiþjónustan sé veitt af sálfræðingi sem er aðili að rammasamningi við Sjúkratryggingar. Einungis eru fimm sálfræðingar á landinu aðilar að fyrrgreindum samningi.
Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga nær að þessu gefnu til tíu meðferðartíma, að hámarki, á grundvelli hverrar tilvísunar og gildir í sex mánuði frá útgáfudegi.
- Algengt er að meðferðartími hjá sálfræðingi kosti á bilinu 12.000-15.000 krónur. Þá er algengt að einstaklingur með kvíða og þunglyndi þurfi að gera ráð fyrir um 10-15 meðferðartímum hjá sálfræðingi til að byrja með. Bein útgjöld hans vegna meðferðarinnar eru því á bilinu 120.000-220.000 krónur.
- Inntar greiðslur vegna sálfræðiþjónustu veita ekki rétt á afsláttarkorti sem sjúklingar geta fengið þegar tiltekinni upphæð kostnaðar vegna heilbrigðisþjónustu er náð.
- Eðlilegt og sanngjarnt er að veita sálfræðiþjónustu á sömu forsendum og aðra heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. að fella þjónustuna undir greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu SÍ.
- Núverandi fyrirkomulag felur í sér mismunun á grundvelli fötlunar, sjúkdóma eða raskana. Fjöldi einstaklinga þarf á degi hverjum að neita sér um þessa lífsnauðsynlegu þjónustu. Það leiðir oftar en ekki til þess að vandinn verður umfangsmeiri og sjúklingar þurfa aðstoð í mun dýrari úrræðum innan heilbrigðiskerfisins.
Landssamtökin Þroskahjálp hvetja landsmenn til að taka undir þessa kröfu með því að skrifa undir áskorunina til stjórnvalda.
Senda póst til Þroskahjálpar