Mynd: Pexel / Lina Kivaka
Landssamtökin Þroskahjálp óskuðu eftir því þann 24. september 2019 að úttekt yrði gerð á Skálatúni, m.t.t. hvernig þjónustan stenst kröfur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðstæðum fólks sem þar býr og tækifærum til sjálfstæðs lífs. Í Skálatúni búa 35 manns í tveimur íbúðakjörnum og fjórum herbergjasambýlum en þar er einnig rekin dagþjónusta fyrir fatlað fólk.
Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar birti á dögunum frétt um að úttekt á þjónustu við íbúana hafi farið fram.
Þar kemur fram að niðurstöður úttektarinnar sýndu meðal annars að Skálatún þarf að styðja við aukna samfélagsþátttöku íbúa og bæta faglegt starf sitt með aukinni fræðslu til starfsfólks. Einnig kom fram fjöldi atriða sem huga þarf að varðandi starfsemi og skipulag herbergjasambýlisins að Skálahlíð 11a, en þar búa níu einstaklingar með mikla þjónustuþörf. Auk þess beinir Gæða- og eftirlitsstofnun því til Mosfellsbæjar að leggja áherslu á að bjóða einstaklingum sem búa í herbergjasambýlum Skálatúns aðra búsetukosti í samræmi við lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
Landssamtökin Þroskahjálp hafa ítrekað óskað eftir að samskonar úttekt verði gerð á Sólheimum.