Þroskahjálp vinnur nú að því stofna ungmennaráð. Með því er að því stefnt að styrkja starf samtakanna í ýmsum mikilvægum málum sem varða réttindi og hagsmuni ungs fólks. Með stofnun ráðsins verður til vettvangur þar sem ungt fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu fær betri tækifæri til að vera virkir þátttakendur í umræðu og stefnumótun sem varðar réttindi þess og mikilvæg hagsmunamál
Á fundum ungmennaráðsins verða rædd ýmis mál sem varða líf ungs fólks í nútíð og framtíð, svo sem nám og félagslíf, atvinnumál, tómstundir og frítími, húsnæði, búseta og eigin heimili. Einnig verður rætt um hvernig er best að segja öðrum frá reynslu og skoðunum þeirra sem eru í ungmennaráðinu. Á fundunum kynnast þátttakendur og gera eitthvað skemmtilegt saman. Ungmennaráðið ætlar að gera mikið gagn. Og líka að hafa mjög gaman.
Þroskahjálp leitar nú að ungu fólki sem vill taka þátt í að stofna Ungmennaráðið, en fyrsti fundur þess verður haldinn 23. janúar 2020. Verkefnið hefur verið kynnt sérstaklega fyrir fólk á aldrinum 16 - 20 ára, en allt ungt fólk sem vill leggja ráðinu lið er velkomið.
Þeir sem vilja kynna sér ungmennaráðið betur eða skrá sig á fundinn eru hvattir til að senda fyrirspurn til Önnu Láru, sem hefur umsjón með stofnun ráðsins, á anna.lara.steindal@gmail.com eða hringja síma 896 7870.