Landssamtökin Þroskahjálp mótmæla harðlega þeim niðurskurði í málaflokki örorku og fatlaðs fólks sem fjármálaráðherra hefur boðað með breytingum á fjármálaáætlun.
Í tillögum sem fjármálaráðherra hefur lagt fram er gert ráð fyrir að fjárveitingar til málaflokksins dragist saman um 8 milljarða kr. á árunum 2021 – 2024 frá því sem áður var gert ráð fyrir. Það hlýtur að vekja sérstaka athygli og furðu að í tillögu ráðherrans er gert er ráð fyrir að fé til þessa málaflokks verði skorið meira niður en til nokkurs annars málaflokks.
Þá er það ámælisvert og vekur mikil vonbrigði að ráðherra skuli hafa undirbúið og lagt fram þessar breytingatillögur án nokkurs samráðs við fatlað fólk eða samtök þess og án þess að skýra með nokkrum hætti hvaða liðir í málaflokknum er gert ráð fyrir að verði skornir niður. Þetta er ekki verklag sem skapar traust til sjórnvalda eins og ríkisstjórnin kveðst ætla gera í stefnuyfirlýsingu sinni.
Það er með ólíkindum að enn skuli stjórnvöld ætla að vega sérstaklega að þeim hópi sem býr við verstu kjörin og nýtur minni og færri tækifæra á flestum sviðum samfélagsins en aðrir sem í landinu búa.
Landssamtökin Þroskahjálp skora á alþingismenn að hafna þessum vondu og illa unnu tillögum fjármálaráðherra.