Í vikunni birti Gæða- og eftirlitsstofnun velferðamála skýrslu um alvarlegt atvik sem varð í Reykjadal síðasta sumar eftir að hafa gert úttekt á starfseminni þar.
Í skýrslunni kemur fram að Gæða- og eftirlitsstofnun telji að fyrstu viðbrögð stjórnenda í Reykjadal hafi verið aðfinnsluverð og að skort hafi viðeigandi verkferla til að bregðast við atviki sem þessu. Þessu tekur Þroskahjálp alvarlega, enda er hlutverk samtakanna að vera sérstaklega til aðhalds, stuðnings og ráðgjafar í öllum málum er snúa að fötluðum börnum og fólki með þroskahömlun eða skyldar fatlanir.
Starfsemi Reykjadals er mjög mikilvæg fyrir fötluð börn og ungmenni og þar hefur farið fram faglegt og metnaðarfullt starf í áratugi. Samtökin fagna því að Reykjadalur hafi uppfært verkferla sína og þjálfað starfsfólk með viðeigandi hætti með það markmiði hindra að atvik sem þetta komi upp. Samhliða því að verklag sé skýrt og starfsfólk sé mjög vel þjálfað og frætt er það einlæg von Þoskahjálpar að fullt traust verði á ný á milli allra aðila og að starfsemi Reykjadals dafni og eflist á grundvelli trausts, samvinnu og opinna samskipta.
Fötluð börn og og ungmenni eru mjög berskjölduð fyrir ofbeldi af öllu tagi og eiga skýran og skilyrðislausan rétt til að geta verið örugg og varin gegn ofbeldi eftir fremsta megni þegar þau sækja hvers konar menntun eða taka þátt í íþróttum eða frístundastarfi. Mikilvægt er að í öllu starfi með fötluðum börnum og ungmennum sé til staðar verklag og viðbragðsáætlanir til að lágmarka alla hættu á að fötluð börn og ungmenni séu sett í hættulegar aðstæður og til að tryggja rétt viðbrögð ef alvarleg atvik eiga sér stað.
Samhliða útgáfu skýrslunnar hefur Gæða- og eftirlitsstofnun áform um að kanna stöðu rekstrarleyfa og gæði þjónustu hjá öllum þeim sem reka sumarbúðir fyrir börn. Þessu fagna Landssamtökin Þroskahjálp, enda er mjög mikilvægt að skilvirkt aðhald og eftirlit sé með stöðum þar sem börn sækja frístundastarf og að þar sé sérstaklega hugað að aðstæðum og þörfum fatlaðra barna til að þau geti haft tækifæri að taka virkan þátt í frístundastarfi, til jafns við önnur börn og notið þeirra mikilvægu lífsgæða sem í því felast.