Lögfræðingur og teymisstjóri teymis um málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum, Guðríður Lára Þrastardóttir, hefur greint frá því opinberlega að fari verkefnið í útboð muni Rauði krossinn taka þátt í því. Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, hefur hins vegar sagt að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort verkefnið verðið boðið út þar sem það sé ekki útboðsskylt.
Rauði krossinn á Íslandi hefur sinnt málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd um árabil og þar hefur orðið til þekking á málaflokknum sem hvergi annars staðar er jafnyfirgripsmikil. Það er því áhyggjuefni að svo virðist sem færa eigi málaflokkinn til annarra, sem alls ekki verður séð að geti haft sömu reynslu og innsýn og hlutaðeigandi starfsfólk Rauða krossins.
Undanfarin misseri hafa æ fleiri mál sem varða fatlaða umsækjendur um alþjóðlega vernd komið inn á borð Þroskahjálpar. Samtökin hafa upplýsingar um tólf mál þar sem fatlaðir umsækjendur áttu í hlut á síðasta ári, börn og fullorðnir. Flestir eru í fylgd með fjölskyldum svo ljóst er að þessi mál varða líf, hagsmuni og réttindi margfalt fleiri einstaklinga, barna og fullorðinna.
Í mörgum þessara mála telja samtökin að málsmeðferð stjórnvalda hafi alls ekki verið fullnægjandi eða í samræmi við þær skyldur sem leiða af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem stjórnvöld skuldbundu sig til að framfylgja með innleiðingu samningsins árið 2016. Í ljósi þess hversu gríðarlega berskjaldaður hópur fatlaðir umsækjendur um alþjóðlega vernd eru hafa Landssamtökin Þroskahjálp ítrekað lýst yfir áhyggjum af þessu og boðist til samráðs til að tryggja að fatlaðir umsækjendur njóti þeirra réttinda sem stjórnvöldum er skylt að mæta.
Í ljósi ofangreinds lýsa Landssamtökin Þroskahjálp yfir þungum áhyggjum af því að staða fatlaðra umsækjenda alþjóðlega vernd muni veikjast enn meira verði af þeim áformum sem hér hefur verið greint frá og alls ekki verður séð að hafi verið undirbúin og metin með vönduðum hætti, eins og stjórnvöldum er augljóslega skylt að gera þegar svo mikilsverð mannréttindi berskjaldaðs fólks eru í húfi.