Í júní bárust fréttir af því að húseign fatlaðs manns, Jakub Polkowski, hefði verið seld á nauðungaruppboði langt undir markaðsvirði eignarinnar og til stæði að bera hann og fjölskylduna út. Nú hefur orðið af því. Jakub hefur misst heimili sitt og aleigu og verið komið fyrir í félagslegri íbúð í Reykjanesbæ.
Í júni sendi Þroskahjálp erindi á Reykjanesbæ, sýslumanninn á Suðurneskjum, dómsmálaráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti auk Réttindagæslunnar. Þess var krafist að grein yrði gerð fyrir því með hvaða hætti gætt var að viðeigandi aðlögun í ferlinu sem leiddi til nauðungarsölu, hvernig aðgengi að upplýsingum var tryggt fyrir Jakub, sem bæði er fatlaður og af erlendum uppruna og hefur íslensku ekki að móðurmáli og hvaða leiðsagnar hann naut til að gæta þeirra mikilsverðu hagsmuna að missa ekki heimili sitt og aleigu. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um hvort Réttindagsælu fatlaðs fólks hafi verið gert viðvart og/eða haft samband við hagsmunasamtök fatlaðs fólks til að tryggja Jakub Polkowski stuðning við að gæta hagsmuna sinna.
Af þeim svörum sem Þroskahjálp bárust við þessum fyrirspurnum má ljóst vera að ekkert þessara skilyrða var uppfyllt, sem er augljóst og mjög alvarlegt brot a samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þar með þeim mannréttindum sem samningurinn stendur vörðu um. Landssamtökin Þroskahjálp krefjast þess að íslenskir ráðamanna sýni í verki en ekki aðeins i orði vilja sinn og kjark til að tryggja og vernda mannréttindi fatlaðs fólks en líti ekki undan þegar það er aftur og aftur beitt augljósum og ömurlegum órétti.