Anna Lára Steindal og Árni Múli Jónasson
Í ljósi ummæla Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, um „viðkvæma hópa“ og „að einblína þá sem eru í mestu neyðinni“ í umræðum á Alþingi í gær um fólk sem leitar hér verndar, telja Landssamtökin Þroskahjálp rétt og skylt að koma eftirfarandi á framfæri.
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að hagsmuna- og réttindamálum fatlaðs fólks. Samtökin byggja stefnu sína og starf á alþjóðlegum mannréttindum sem eru áréttuð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Íslenska ríkið fullgilti samninginn árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða ákvæði hans og framfylgja þeim á öllum sviðum.
Á undanförnum vikum hafa fatlaðir umsækjendur um alþjóðlega vernd leitað til Landssamtakanna Þroskahjálpar. Hér er um að ræða fólk sem kemur frá löndum þar sem ófriður og ringulreið ríkir eftir áratugi átaka. Þessir einstaklingar hafa lagt fram gögn íslenskra sérfræðinga sem staðfesta fötlun; t.a.m. hreyfihömlun, alvarlega sjónskerðingu, þroskahömlun og/eða einhverfu, auk andlegra áskorana eftir þá miklu erfðileika sem fólkið hefur upplifað. Þar af er eitt fatlað barn, undir fimm ára aldri.
Flestir þessara einstaklinga hafa þegar hlotið vernd í Grikklandi, þar sem vitað er að aðstæður eru algjörlega óviðundandi fyrir fatlaða flóttafólk. Útilokað er að það njóti þeirra réttinda sem fötluðu fólki eru tryggð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það mat byggjum við á upplýsingum frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks í Grikklandi, sem tölur um aðstæður flóttafólks í Grikklandi frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna styðja. Aðgengi að húsnæði, atvinnu, félagsþjónustu heilbrigðisþjónustu og framfærslu í Grikklandi er almennt erfitt fyrir flóttafólk og enn erfiðara fyrir fatlað flóttafólk með sérþarfir. Þá eru einnig tilvik þar sem synjun um vernd þýðir að viðkomandi, ungt barn, yrði vísað til stríðshrjáðs heimaríkis. Þá hafa Rauði krossinn og UNICEF á Íslandi gagnrýnt stjórnvöld fyrir að vísa hælisleitendum til Grikklandsd, þar sem aðstæður eru slæmar.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir „Mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar verða lögð til grundvallar og áhersla á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd.“
Af þessari yfirlýsingu og orðum dómsmálaráðherra má ráða að ætlun ríkisstjórnarinnar sé að hafa mannúð að leiðarljósi og veita þeim skjól sem við mesta neyð búa. Þó erfitt sé að leggja mælikvarða á neyð fólks er ljóst að í fatlað flóttafólk sem ekki nýtur nauðsynlegrar þjónustu og aðbúnaðar standa augljóslega gríðarlega illa að vígi. Að hafa ekki aðgengi að húsnæði, framfærslu og heilsugæslu, geta ekki séð fyrir fjölskyldu vegna fötlunar, sinnt athöfnum daglegs lífs vegna fötlunar og njóta ekki tækifæra til að viðhalda færni hlýtur að teljast alvarleg neyð. Þegar teknar eru „mannúðlegar“ ákvarðanir um hvort veita skuli fötluðu fólki vernd eða ekki hlýtur því að þurfa að taka mið af þessum aðstæðum.
Í þeim úrskurðum Útlendingastofnunar í umsóknum fatlaðra umsækjenda sem Landssamtökin Þroskahjálp hafa undir höndum er það ekki gert. Ekki er heldur horft til skyldna sem íslenska ríkisins sem fylgdu fullgildingu samanings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
Getur það undir einhverjum kringumstæðum talist í anda mannúðarsjónarmiða að senda fatlað fólk út í fullkomna óvissu þar sem langlíklegast er að það muni hvorki fá húsnæði né framfærslu og þess bíði því líf í heimilsleysi, örbirgð og örvæntingu? Er það ekki augljóslega í fullkominni mótsögn við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, mannréttindasamninga sem Ísland hefur undirgengist og síðast en ekki síst — í fullkominni andstöðu við það sem flestir Íslendingar telja og hafa ævinlega talið sér rétt og skylt að gera þegar til þess leitar örvæntingarfullt fólk í neyð?
Árni Múli Jónasson er framkvæmdastjóri Þroskahjálpar og Anna Lára Steindal er verkefnastjóri hjá Þroskahjálp í málefnum fatlaðs fólks af erlendum uppruna.