Grein birt í Mbl. 27.12.2017
Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður ...
Mannréttindi standa og falla með einni einfaldri hugmynd. Allt fólk á jafnan rétt til tækifæra í samfélaginu.
Ég efast ekki um að langflestir styðji þessa hugmynd og vilji að hún sé einn af hornsteinum samfélagsins. En hugmyndin er brothætt og að henni er sótt úr öllum áttum alla daga og alls staðar í heiminum. Öll ömurlegu mannréttindabrotin sem birtast okkur í sífellu eru stöðug áminning um að ef við stöndum ekki öll saman vörð um mannréttindi allra þá geta þau svo auðveldlega glatast okkur öllum.
Í okkar ríka landi eru mjög margir sem njóta miklu síðri tækifæra en við höfum lofað að tryggja öllu fólki. Fatlað fók hefur alla tíð þurft að þola mjög alvarleg mannréttindabrot og það nýtur á mörgum sviðum enn þá mun síðri réttinda og tækifæra en aðrir.
Kópavogsskýrslan sýnir svo ekki verður um villst að hlutaðeigandi stjórnvöld brugðust alvarlega skyldum sínum til að veita fötluðum börnum sem voru vistuð á Kópavogshæli stuðning, aðbúnað og vernd sem þau áttu rétt á og þurftu á að halda. Hvað höfum við og hvað getum við af því lært?
Fullgilding íslenska ríkisins á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á árinu 2016 er skref í rétta átt þó að það hafi gerst svo seint að furðu vakti. Landssamtökin Þroskahjálp treysta því að íslensk stjórnvöld ætli að reka af sér það slyðruorð með því að innleiða þennan mikilvæga mannréttindasamning hratt og vel í íslensk lög og stjórnkerfi.
En það er ekki góðs viti að íslensk stjórnvöld skuli ekki standa við að fullgilda mikilvægan viðauka við samninginn fyrir lok þessa árs eins og Alþingi hefur þó samþykkt einróma að skuli gert. Og það eru fleiri teikn á lofti sem vekja verulegar áhyggjur og efasemdir um að íslensk stjórnvöld hafi nægilegan metnað og vilja til að tryggja fötluðu fólki sömu mannréttindi og aðrir landsmenn njóta og telja sjálfsögð. Dómar Hæstaréttar þar sem ungu fötluðu fólki hefur verið neitað um tækifæri til sjálfstæðs lífs og þátttöku í samfélaginu, vanræksla menntamálaráðuneytis við að tryggja fötluð ungmenni gætu innritast framhaldsskóla eins og önnur ungmenni, áhugaleysi stjórnvalda um að leggja til svolítið fé til að fólk með þroskahömlun getir stundað nám í myndlist við Myndlistarskólann í Reykjavík. Allt eru þetta mál sem hafa komið upp á árinu.
Íslendingar eru svo lánsamir að hafa notið meiri friðar og efnahagslegrar velsældar en flestar þjóðir heims. Okkur hættir til að trúa því að mannréttindi séu svo sjálfsögð að allir í okkar góða landi hljóti að njóta þeirra.
Því miður er það alls ekki svo. En það er á okkar valdi og ábyrgð að breyta því.
Landssamtökin þroskahjálp þakka stuðninginn á árinu sem er að ljúka og óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar