Áskorun til nýkjörinna alþingismanna

 

Áskorun Þroskahjálpar varðandi réttinda- og hagsmunamál fólks með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir,
send formönnum flokka sem fengu fulltrúa kjörna á Alþingi í nýliðnum kosningum.

Til að uppfylla þær skyldur sem íslenska ríkið hefur undirgengist, m.a. með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þarf ný ríkisstjórn og alþingismenn, sem fólkið í landinu hefur treyst fyrir löggjafarvaldinu, að axla ábyrgð. Þroskahjálp skorar á Alþingi að setja eftirfarandi verkefni í forgang. Samtökin skora jafnframt á þá stjórnmálaflokka sem mynda nýja ríkisstjórn að tryggja að eftirfarandi verkefni verði tilgreind í samstarfssáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

 

  • Fötluðu fólki verði tryggð fagleg og viðeigandi þjónusta.

Forgangsmál er að fötluðu fólki verði tryggði sú þjónusta sem það þarf á að halda og á rétt á til að lifa sjálfstæðu og innihaldsríku lífi. Þjónustan á að vera fagleg og byggð á nýjustu hugmyndafræði sem og á gagnreyndum aðferðum sem eru viðurkenndar í þjónustu við fatlað fólk.

Fagleg og viðeigandi þjónusta er forsenda þess að fatlað fólk hafi tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra. Sá alvarlegi skortur á faglegri og viðeigandi þjónustu sem er allt of víða er ólíðandi og samræmist engan veginn ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga verða að setja í algeran forgang að bregðast við og bæta úr. Til þess að svo megi vera er brýnt að leysa deiluna á milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu og ábyrgð sem undanfarið hefur skyggt á faglega og nauðsynlega umræðu um inntak þjónustu og brýn hagsmunamál fatlaðs fólks.

 

  • Húsnæðismál fatlaðs fólks.

Ríki og sveitarfélög verða að ráðast í alvöru átak til húsnæðisuppbyggingar fyrir fatlað fólk, en um 450 fatlaðir einstaklingar eru á biðlista eftir sértæku búsetuúrræði. Sumir hafa beðið í meira en áratug eftir því að eignast eigið heimili.

Hjá HMS er nú í vinnslu breytingatillögur á Stofnframlagakerfinu sem hljóða upp á að hækka viðbótarstofnframlag til uppbyggingar á húsnæði fyrir öryrkja, fatlað fólk og námsmenn úr 4% í amk 10%. Ný ríkisstjórn ætti að gera þetta mál að sínu og koma því hratt og vel í gegn, því með þessari breytingu geta óhagnaðardrifin byggingarfélög eins og húsbyggingasjóður Þroskahjálpar og Brynja leigufélag haldið áfram að byggja húsnæði fyrir fatlað fólk – í því felst mikill hagur fyrir hið opinbera og stytta má biðlistann. Þá væri skynsamlegt að skoða hvort ekki megi nota fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs til að stuðla enn frekar að hraðri uppbyggingu á húsnæði fyrir fatlað fólk – þar eru til peningar sem alltaf var ætlað í þetta verkefni. Sjá einnig góðar og gagnlegar tillögur í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018

https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Felagsmalaraduneytid/Sk%C3%BDrsla%20starfsh%C3%B3ps%20um%20heildarendursko%C3%B0un%2038-2018.pdf

 

  • Aðgengi að tækni og stafrænum heimi.

Stjórnvöld verða að axla skýra ábyrgð á þeim mannréttindabrotum sem hljótast af því tækni, s.s. rafræn skilríki og gervigreind, sem notuð er til þess að veita aðgengi að mikilvægri þjónustu og samfélagi er ekki aðgengileg öllum. Að einstaklingar hafi ekki aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum, eigin fjármunum og annarri grundvallarþjónustu sem rafræn skilríki veita aðgang að er ólíðandi mismunun sem verður að uppræta strax. Alltaf verður þörf fyrir persónulega talsmenn sem það kjósa. En fyrir þá sem vilja sjálfir fara með sín mál og hefðu til þess fulla hæfni og getu ef ekki kæmu til útilokandi kröfur sem settar eru fyrir því að fá útgefin rafræn skilríki, verður að finna tafarlausa og réttláta lausn. 

Sú breytingu á formi þjónustu, störfum á vinnumarkaði, námsumhverfi og ýmis konar verkefnum sem tæknin er að taka yfir í æ ríkari mæli krefst tafarlausrar athygli stjórnvalda sem verða að axla ábyrgð á því að þessi þróun taki fullt tillit til inngildingar og mannréttinda allra. Annars er raunveruleg og raunar mjög mikil hætta á bakslagi hvað varðar þann sjálfsagða árangur sem náðst hefur í réttindabaráttu fatlaðs fólks.

 

  • Aðgengi að námi, vinnumarkaði, heilbrigðisþjónustu og geðheilbrigðisþjónustu.

Auka þarf aðgengi allra án aðgreiningar að námi á öllum skólastigum og setja inn aukið fjármagn í tengslum við inngildandi nám fatlaðra barna og ungmenna til að tryggja sérfræðiþekkingu og stoðþjónustu inna skólakerfisins.

Stjórnvöld verða að gera átak í atvinnutækifærum fyrir fatlað fólk hjá opinberum stofnunum og marka sér skýra og réttláta stefnu um atvinnumál fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu.

Stjórnvöldum ber að tryggja aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með þroskahömlun, einhverft fólk og fólk með fjölþættan vanda hefur hingað til ekki verið í boði, nema fyrir alvarlegustu tilfellin. Engin meðferðarúrræði eru til fyrir fólk með þroskahömlun eða einhverft fólk með fíknivanda. Þessu þarf að breyta án tafar.

 

  • Þjónusta við fötluð börn.

Nauðsynlegt er að bæta þjónustu við fötluð börn og ungmenni og útrýma til framtíðar biðlistum (Ráðgjafa- og greiningarstöðin, Geðheilsumiðstöð barna, Heyrnar- og talmeinastöð) til að lögin um farsæld barna skili því sem þeim er ætlað.

 

  • Hækkun grunnörorkulífeyris.

Mjög brýnt er að hækka án tafar grunnörorkulífeyri hjá þeim hópi sem byggir afkomu sína alfarið á lífeyrisgreiðslum og getur ekki eða fær ekki tækifæri til að vera á vinnumarkaði. Bilið milli lágmarkslauna og grunnörorkulífeyris hefur breikkað á undanförnum árum sem gerir það að verkum að stór hluti fatlaðs fólks býr við fátækt nú og til framtíðar verði ekki við brugðist.

 

  • Mannréttindastofnun Íslands.

Mikilvægt er að stjórnvöld standi við áætlanir sínar um stofnun á burðugri og sjálfstæðri Mannréttindastofnun og að Réttindagæsla fatlaðs fólks verði styrkt til muna undir nýrri stofnun og viðeigandi fjármagn verði tryggt til rekstursins.

 

  • Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks og lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.  

Árið 2022 hófst umfangsmikil vinna við gerð landsáætlunar um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslensk stjórnvöld fullgiltu árið 2016 og skulbundu sig þar með til að framfylgja. Áætlunin var unnin í samstarfi stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks.  Áætluninni er ætlað að tryggja farsæla innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi.

Landsáætlunin markar tímamót, enda er Ísland nú í fyrsta sinn með heildstæða stefnu í málefnum fatlaðs fólks. Markmiðið er að fatlað fólk geti notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og til jafns við annað fólk.

Alþingi samþykkti landsáætlunina sem þingsályktunartillögu í mars 2024. Landsáætlunin er liður í innleiðingu og lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem kveðið var á um í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar. Mikilvægt er að ekki komi hik á innleiðingu landsáætlunar og að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur án tafar.

 

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar