Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Greinin birtist fyrst í Kjarnanum þann 1. mars.
Mjög margt fatlað fólk hefur ekki aðrar tekjur en örorkubætur sem eru skammarlega lágar og það hefur yfirleitt litla eða enga möguleika til að auka tekjur sínar, vegna fötlunar og fárra atvinnutækifæra. Fatlað fólk, sem verður að láta örorkubætur duga fyrir allri sinni framfærslu, er tvímælalaust fátækasti hópurinn í íslensku samfélagi. Afleiðingin er augljós og óhjákvæmileg: Fatlað fólk nýtur miklu minni lífsgæða og tækifæra en aðrir þjóðfélagsþegnar.
Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir: „Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.“
Og í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir segir:
„Fatlað fólk á rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu.“
Á öðrum stað í sömu lögum segir að „fólki sem býr nú á stofnunum eða herbergjasambýlum skuli bjóðast aðrir búsetukostir.“
Fyrir mjög marga fatlaða Íslendinga eru þessi skýru lagaákvæði þó bara falleg orð á blaði. Raunveruleikinn er allt annar. Mjög margt fatlað fólk er á biðlistum hjá sveitarfélögum eftir húsnæði sem það á rétt á að fá og margir hafa verið mjög lengi á biðlistum og eru í fullkominni óvissu um hvenær þeir munu fá þenna lögbundna rétt sinn uppfylltan. Þessu fólki er þó ekki einungis neitað um tækifæri til að eiga eigið heimili. Margvísleg önnur mannréttindi, sem því tengjast óaðskiljanlega, s.s. til einkalífs og fjölskyldulífs, eru einnig mikið skert.
Vegna þessara staðreynda er sérstaklega ömurlegt að hlusta á stjórnendur ríkis og sveitarfélaga barma sér sí og æ yfir kostnaði af þjónustu við fatlað fólk og karpa sífellt um hver á að greiða hvað. Fatlað fólk, sem býr við verstu kjörin og hefur minnstu og fæstu tækifærin í íslensku samfélagi og fær ekki einu sinni þann skýra rétt sem það á að fá samkvæmt lögum, hefur ekkert til þessa unnið og þarf svo sannarlega ekki á því að halda að því sé lýst sem stórkostlegri fjárhagslegri byrði á samfélaginu. Þessi vesældarlegi söngur stjórnenda ríkis og sveitarfélaga lýsir nákvæmlega sama hugarfarinu og er alveg jafnlágkúrulegur og niðurlægjandi og Örn Arnarson lýsti svo í kvæði sínu um hreppsómagann:
„Líf hans var til fárra fiska metið.
Furðanlegt, hvað strákurinn gat étið.“
Sveitarfélög og sveitarstjórnir, sem geta ekki eða vilja ekki standa við lagalegar skyldur sínar gagnvart þeim íbúum sínum, sem fæst tækifæri hafa, minnst fá og ekkert eiga, ættu nú fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor að spyrja sig alvarlegra spurninga um tilgang sinn og markmið. En því miður er ekki líklegt að þau geri það því að eins og Halldór Laxness benti á hefur því alls ekki að tilefnislausu verið haldið fram að Íslendingar „leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.“
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.