Aileen Soffia Svensdottir
Greinin birtist fyrst á Vísi þann 27. maí 2021.
Sem nemandi við söngskóla Sigurðar Demez hef ég fengið tækifæri til þess að stunda það nám sem að mig hefur alltaf langað til og fengið að stunda það á mínum forsendum. Þetta hefur skipt sköpum þar sem ég bý við fötlun sem meðal annars lýsir sér í kvíðaröskun og skorti á einbeitingu. Það hefur samt ekki verið slegið af kröfum og það að sigrast á þeim hefur gefið mér aukið sjálfstraust, sem hefur nýst mér við að takast á við önnur verkefni. Námið hefur líka opnað fyrir mér tækifæri að taka þátt í kórastarfi og kynnast þar mörgu góðu fólki. Fyrir allt þetta er ég mjög þakklát.
Það virðist því miður oft skorta skilning á því hve heilsueflandi og styrkjandi söngnám getur verið fyrir einstakling. Þeir einkareknu skólar sem bjóða upp á slíkt nám standa í endalausri baráttu ár hvert fyrir fjármagni til reksturs skólanna. Það verður til þess að stjórnendur þessara skóla þurfa að eyða miklum tíma í að berjast fyrir lífi þeirra í stað þess að einbeita sér að því að efla söngnámið. Ég spyr mig oft að því af hverju ég sem hef valið mér listnám þurfi endalaust að búa við það óöryggi sem fylgir því á hverju ári að vita ekki hvort skólinn klári þetta ár og svo ekkert vitað um framhaldið. Þessir flottu kennarar og nemendur eiga ekki að þurfa að lifa í þessari endalausu óvissu.
Við þetta bætist að það fjármagn sem skólarnir fá frá yfirvöldum er svo knappt að þeir þurfa að leggja á há skólagjöld. Það kemur sér sé í lagi illa fyrir þá nemendur sem vegna einhvers konar fötlunar eða annarra erfiðleika þurfa lengri tíma til að ljúka náminu og útilokar þá oft frá söngnámi. Hvers vegna eiga að gilda aðrar reglur um söngnám en almennt framhaldsnám þar sem skólagjöld eru lítil sem engin? Takmarkið er það sama. Að gera þá sem stunda það tækifæri til þess að verða nýtari og ánægðari þjóðfélags-þegnar. Ég er orðin langþreytt á að heyra þessi loforð um fjölbreytt námsframboð án þess að þeim fylgi fjármagn til þess að gera þau að veruleika.
Höfundur er nemandi við Söngskóla Sigurðar Demetz.