Múrbrjótar 2015

Landssamtökin Þroskahjálp afhentu í dag Múrbrjótinn sem er viðurkenning til aðila sem þykja hafa sýnt gott frumkvæði og ýtt undir nýsköpun varðandi þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu, og þannig sýnt samfélagslega ábyrgð. Við athöfinna flutti Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður samtakanna meðfylgjandi ávarp.

Í dag, 3. desember, halda Landssamtökin Þroskahjálp upp á alþjóðadag  fatlaðs fólks.

Árið 1992 var fyrst haldið upp á þennan dag úti í hinum stóra heimi fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna og árið 1993 tóku Landssamtökin Þroskahjálp fyrst þátt í því og hafa gert það á hverju ári óslitið síðan.

 Dagurinn er helgaður málefnum og réttindum fatlaðs fólks um allan heim til að efla vitund um og vekja athygli á stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu sem er um svo margt allt of veik og einkennist af fordómum, mismunun og réttleysi. – Það er mikið verk að vinna! - En það er mikilvægt verk og það snýst um mannréttindi og jöfn tækifæri fólks og betra samfélag - og þannig verk er gaman að fá að vera með í að vinna. – Gleymum því aldrei!

Talið er að um milljarður jarðarbúa sé með  einhvers konar fötlun og stór hluti þeirra, eða um 80%,  býr í þróunarlöndum. Hlutskipti fatlaðs fólks í þeim lödnum er undantekningalaust mikil fátækt, skortur á menntun og heilsugæslu, atvinnuleysi, réttleysi og ajfnvel alls kyns kúgun og ofbeldi. Í þróunarlöndum er grunnþjónustan víða mjög léleg og stopul og þar er fatlað fólk  alltaf aftast þegar takmörkuðum gæðum er úthlutað og fær yfirleitt litla þjónustu og mjög oft alls enga.

Fatlað fólk hvarvetna í heiminum er oftar en ekki þvingað út á á jaðar samfélagsins þar sem skortur á  menntun, þjónustu, atvinnu og öðrum tækifæri skerða lífsgæði þess á öllum sviðum og takmarkar alla möguleika þess til þátttöku í samfélaginu til jafns á við aðra.

Á alþjóðadegi fatlaðs fólks eigum við því öll að hugsa og ræða og leggja okkur fram við að finna leiðir sem duga til að efla skilning á málefnum fatlaðs fólks. Hvernig getum við aukið mannlega reisn og virðingu fatlaðs fólks og ekki bara fatlaðs fólks – því að sá sem ekki tekur þátt í því er minni fyrir vikið – Með þvi að auka mannlega reisn og virðingu fatlaðs fólks aukum við reisn alls fólks og sjálfsvirðingu samfélagsins alls.

Og hvernig getum við styrkt réttindi og bætt velferð fólks með fötlun? Marmiðið á að vera – hlýtur að vera - að efla samfélagslega vitund um þau verðmæti sem felast í samfélagi án aðgreiningar þar sem fatlað fólk er þátttakendur á öllum sviðum, hvort heldur sem er í stjórnmála-, félags-, efnahags-, eða menningarlífi. 

 

Ágætu gestir.

Nú í ár er „Aðgengi og valdefling fyrir allt fatlað fólk“ sérstakt  þema alþjóðadags fatlaðs fólks.

Valdefling fatlaðs fólks er afskaplega mikilvæg. Rétturinn til að ráða lífi sínu, taka ákvarðanir um hitt og þetta sem flestum finnst svo sjálfsagt að fá að ráða en fötluðu fólki er svo oft neitað um. Stundum vegna kúgunar og jafnvel með ofbeldi, stundum vegna forræðishyggju og stundum jafnvel af misskilinni góðmennsku og mjög oft bara af því að kerfið er vant að hafa þetta svona eða hinsegin. Kerfi hjá ríki og sveitarfélögum eiga að þjóna fólki en allt of oft stjórna þau fólki og og allt of mörg dæmi eru um að fatlað fólk verði fyrir barðinu á kerfum. Hagsmunir þess eru látnir víkja fyrir hagsmunum kerfanna! Kerfa sem horfa á fatlað fólk sem tölur á blaði og kostnað í krónum talið en ekki fólk af holdi og blóði með tilfinningar, vonir, metnað og löngun til að lifa innihaldsríku lífi. – Þetta er óþolandi! Og þessari kerfishugsun verður að breyta!

Valdefling fatlaðs fólks er ekki bara mannréttindmál og spurning um að gera það sem rétt er gagnvart öðrum. – Koma fram við aðra eins og ég vil að aðrir komi fram við mig. – Valdefling fatlaðs fólks er nefnilega líka raunveruleg fjárfesting í beinhörðum peningum, í mannauði, í atvinnuþátttöku, í betri heilsu, næringu, menntun og félagslegri vernd. Með valdeflingu er fatlaður einstaklingur betur undir það búinn að nýta sér tækfæri til jafns á við alla aðra. Fá tækifæri til að vera með og leggja til eftir efnum aðstæðum hvers og eins.

Að byggja upp samfélag án aðgreiningar krefst fullrar þátttöku okkar allra - Alls fólks. Við þurfum öll að vinna að því saman, með þátttöku allra - og alls ekki síst fatlaðs fólks - að skapa samfélag þar sem rétturinn til þátttöku og lífsgæða er virtur fyrir sérhverja manneskju. Það er réttur sem allir eiga að njóta án þess að þurfa að bugta sig eða beygja eða þakka fyrir í auðmýkt. Þetta er og á að vera réttur allra en alls ekki góðverk eða ölmusa.

Viðhorf einstaklinga og samfélagsins skipta svo ótrúlega miklu máli ef árangur á að nást.

Við hjá Landssamtökunum Þroskahjálp höfum ætið barist fyrir því að fatlað fólk sé viðurkennt til jafns við aðra í samfélaginu en fái jafnframt viðeigandi stuðning og aðstoð þegar það á við til að gera verið virkir þátttakendur. Okkar markmið er að einstaklingar með fötlun og fjölskyldur þeirra búi við sambærileg tækifæri og aðrir; séu þátttakendur á öllum sviðum samfélagsins hvort heldur sem er í námi, atvinnu, félagslífi, stjórnmálum eða í einkalífi. Til að ná þessum markmiðum er mikilvægt að vinna með viðhorf, opna augu fólks og opna umræðuna og minna okkur öll á að það er eðlilegt að það fæðist fólk með skerðingar og að fólk með skerðingar er ekki gallað heldur á rétt á sambærilegri mannvirðingu og allir aðrir.

Kæru gestir.

Á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks er hefð fyrir því að við hjá Landssamtökunum Þroskahjálp afhendum Múrbrjóta til aðila sem þykja hafa sýnt gott frumkvæði og ýtt undir nýsköpun varðandi þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu og þannig sýnt samfélagslega ábyrgð. Okkur finnst mjög gaman að fá tækifæri til að sýna þannig fólki virðingu okkar og hvetja það jafnframt til frekari dáða og við vonum að það skynji þær tilfinningar sem búa að baki viðurkenningunni.

Þau sem hljóta Múrbrjótinn í ár eiga það sameiginlegt að hafa hvert á sínu sviði með verkum sínum haft áhrif á viðhorf til fatlaðs fólks og opnað leiðir og tækifæri til virkrar þátttöku og viðurkenningar á jöfnum tækifærum og réttindum fyrir alla óháð fötlun.

Múrbrjótarnir eru smíðaðir á handverkstæðinu Ásgarði þar sem fólk með þroskahömlun starfar.  

Aðalheiður Sigurðardóttir hlýtur Múrbrjótinn 2015 fyrir verkefni sitt Ég er unik.

Ég er unik er vefsíða sem opnaði í september síðastliðnum og inn á þeirri vefsíðu getur fólk á einhverfurófi eða með ADHD búið til sínar persónulegu fræðslubækur.

Markmið Aðalheiðar með egerunik.is er að breyta viðhorfum og staðalímyndum með því að fræða samfélagið um fjölbreytileikann á jákvæðan og persónulegan hátt. Hún leitast með verkefni sínu við að hvetja einstaklinga, sem upplifa sig öðruvísi og óska eftir skilningi samfélagsins, til þess að búa til sínar persónulegu frásagnir sem lýsa þeirra áskorunum og styrkleikum.

Elín Sveinsdóttir hlýtur Múrbrjótinn 2015 fyrir framleiðslu þáttanna Með okkar augum.

Elín Sveinsdóttir er framleiðandi þáttanna Með okkar augum sem sýndir hafa verið hjá RÚV  undanfarin fimm sumur.  Haustið 2009 kviknað sú hugmynd hjá Landssamtökunum Þroskahjálp að gera sjónvarpsefni sem fólk með þroskahömlun stæði að og skoðaði samfélagið með sínum augum.  Það var mikið lán að leitað var til Elínar um að koma að þessu verkefni sem fagmaður sem hafði mjög mikla reynslu af framleiðslu sjónvarpsefnis. Elín gerði strax þessa hugmynd að sinni ástríðu.

Alls hafa nú verið gerðir 30 þættir sem hafa fengið mjög mikið áhorf og hafa þættirnir þrisvar verið tilnefndir til Eddu-verðlauna. Óhætt er að fullyrða að þættirnir  Með okkar augum hafa gert mikið til að draga úr fordómum í samfélaginu gagnvart fólki með þroskahömlun og bætt ímynd og styrkt sjálfsmynd fólks með þroskahömlun.

Elís Kjartansson hlýtur Múrbrjót Landssamtakanna Þroskahjálpar 2015 fyrir innleiðingu nýrra aðferða við rannsókn ofbeldismála gegn fötluðu fólki. 

Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi rannsóknardeildar lögreglunnar á Selfossi, hefur í störfum sínum lagt mikið af mörkum til að stuðla að því að rannsókn brotamála þar sem fatlað fólk á hlut að máli og sérstaklega mál sem varða kynferðsibrot gegn fötluðum konum, fari þannig fram að fatlað fólk fái notið þeirra mannréttinda að fá vernd réttarkerfisins og hafa virkan aðgang að því til jafns við aðra. Elís hefur í þessu skyni tekið saman verklagsreglur  fyrir starfsfólk lögreglunnar sem rannsakar mál þar sem fatlað fólk, s.s. fólk með þroskahömlun, á hlut að máli.