Ræða formanns á afmælishátið samtakanna.

Formaður Þroskahjálpar sagði m.a. þetta um dóm í máli Salbjargar Óskar Atladóttur í ræðu sinni á afmælisráðstefnu samtakanna:

„Hæstiréttur hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að þessi mannréttindi sem fatlað fólk hefur samkvæmt regulgerð um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu og samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur undirgengist séu bara orðin tóm. Falleg en innihaldslaus orð!

Ef stjórnvöld og dómstólar vilja ekki standa vörð um mannréttindi fatlaðs fólks verður Alþingi að bregðast strax við og gefa þeim með lögum skýr fyrirmæli um að gera það. Þessi dómur Hæstaréttar kallar á að lögum verði breytt til að þau standist kröfur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Til að tryggja það sem best þarf að taka samninginn í íslensk lög eins og gert var með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“

 

Hér má lesa alla ræðuna.

 

Góðir gestir.

Velkomin á afmælisráðstefnu Landssamtakanna Þroskahjálpar sem ber yfirskriftina „Gott líf fyrir alla – allra hagur, allra ábyrgð“.

Samtökin voru stofnuð fyrir 40 árum síðan með það að markmiði að tryggja fötluðu fólki fullt jafnrétti á við aðra þjóðfélagsþegna.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa frá upphafi lagt höfuðáherslu á að málefni fatlaðs fólks séu málefni samfélagsins alls og að unnið skuli að þeim í samráði við þá sem eiga beinna og mikilla hagsmuna að gæta. Samtökin hafa lagt sérstaka áherslu á málefni fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra jafnframt því að  vinna og stuðla að því að fullorðið fólk með þroskahömlun  geti verið eigin talsmenn, með stuðningi þegar það á við.

Samtökin eiga samstarf við stjórnvöld um málefni fatlaðs fólks og berjast fyrir rétti þess.  Við  leitumst við að hafa mótandi áhrif á allar aðgerðir, sem stjórnvöld bera ábyrgð á, með það að leiðarljósi að fatlað fólk njóti í hvívetna sama réttar og sömu aðstöðu og aðrir landsmenn. Árangur þessa starfs er ótvíræður og er óhætt að segja að á þessum 40 árum hafi orðið miklar framfarir í löggjöf og framkvæmd þjónustu í átt til aukinna mannréttinda fatlaðs fólks á Íslandi.

Yfir því má gleðjast en við megum alls ekki slaka neitt á í baráttunni fyrir réttindum og tækifærum fatlaðs fólks til jafns við aðra. Enn er mjög margt og mikið ógert. Það er líka ástæða til að vera á varðbergi gagnvart öfugþróun í þessum málum. Við höfum mörg dæmi um það frá nágrannalöndum okkar og þannig blikur eru einnig á lofti yfir landinu okkar.

Því miður á íslenskt samfélag enn of langt í land með að tryggja fötluðu fólki viðunandi aðstoð og jafnrétti í raun og því er ljóst að Landsamtökin Þroskahjálp hafa enn mörg og mikilvæg verk að vinna og þurfa áfram að vera vakin og sofin í mannréttindabaráttunni.

Dómur sem Hæstréttur Íslands felldi í gær er skýr áminning um þetta. Í því máli reyndi á rétt ungrar konu með fötlun; konu sem óskar þess að fá að búa á heimili sem foreldrar hennar hafa búið henni og þar sem hún vill vera. Fá að eiga þar heimili og njóta þeirrar friðhelgi sem það veitir og tækifæra til einkalífs eins og annað fólk fær að njóta. Við hjá samtökunum töldum og teljum enn að þessi ósk hennar snúist ekki um annað en að fá sjálfsögð mannréttindi sem eru viðurkennd og varin með fjölmörgum samningum á því sviði sem Ísland hefur undirgengist og skuldbundið sig til að virða og framfylgja. Mannréttindi sem langflestir Íslendingar ganga að sem vísum.

En svo er ekki.

Hæstiréttur lýsti því yfir með dómi sínum í gær að Reykjavíkurborg er heimilt samkvæmt íslenskum lögum að neita henni um þessi mikilvægu mannréttindi og lífsgæði. Dómurinn kemst að þessari niðurstöðu þrátt fyrir að kveðið sé á um það í reglugerð nr. 1054/2010, um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu, sem er sett samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks að markmiðið með reglugerðinni sé „að fatlað fólk fái félagslega þjónustu og sérstakan stuðning til þess að geta búið þannig að sem best henti hverjum og einum“ og að fylgt skuli „þeirri meginreglu að fólk eigi val um hvernig það býr, enda sé það í samræmi við það sem almennt tíkast“.

Þessi sami réttur er meginþáttur í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk en í 19. gr. hans segir að ríki skuli tryggja „fötluðu fólki tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir.“

Hæstiréttur hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að þessi mannréttindi sem fatlað fólk hefur samkvæmt regulgerð um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu og samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur undirgengist séu bara orðin tóm. Falleg en innihaldslaus orð!

Ef stjórnvöld og dómstólar vilja ekki standa vörð um mannréttindi fatlaðs fólks verður Alþingi að bregðast strax við og gefa þeim með lögum skýr fyrirmæli um að gera það. Þessi dómur Hæstaréttar kallar á að lögum verði breytt til að þau standist kröfur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Til að tryggja það sem best þarf að taka samninginn í íslensk lög eins og gert var með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Við megum alls ekki slaka neitt á í baráttunni fyrir réttindum og tækifærum fatlaðs fólks til jafns við aðra. Það er hætt við að fólk telji að ástandið sé betra hér á Íslandi en  raun ber vitni því fólk treystir því að réttur sem er í lögum og reglum sem stjórnvöld hafa sett og í samningum hafi innihald í verki. Dómur Hæstaréttar í gær í máli Salbjargar Óskar Atladóttur er mjög mikil áminning  til okkar allra um að enn er mjög mikið verk að vinna og að við megum alls ekki sofna á verðinum eða slaka nokkuð á í baráttu okkar.

 Að þessum orðum sögðum segi ég þessa ráðstefnu setta og bið ráðstefnustjórana þau Katrínu Guðrúnu Tryggvadóttir  og Friðrik Sigurðsson að taka við stjórninni.