Landssamtökin Þroskahjálp fagna þingsályktunartillögunni og vilja koma eftirfarandi varðandi hana á framfæri við allsherjar- og menntamálanefnd.
Afar mikilvægt er að öll ungmenni fái fræðslu um kynfrelsi og samskipti kynjanna við hæfi, óháð uppruna, fötlun, kyni, kyngervi, kynhneigð og annarra áhrifaþátta í bakgrunni og umhverfi þeirra.
Samtökin hvetja stjórnvöld til þess að taka tillit til þarfa fatlaðra barna og ungmenna þegar kemur að fræðslu sem fjallað er um í þingsályktunartillögunni, með sérstaka áherslu á þarfir og reynsluheim ungmenna með þroskahömlun.
Barngerving fatlaðra ungmenna leiðir til að of oft er litið er svo á að þau hafi ekki áhuga á nánum samböndum, kynjafræði og kynferðislegum samskiptum. Af þeim sökum er kynfræðslu fyrir hópinn oft ábótavant. Líta verður sérstaklega til þessara fordóma í þróun fræðsluefnis og lýsa samtökin yfir vilja til að koma að vinnu við gerð þess.
Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með allsherjar- og menntamálanefnd til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum og áherslum.
Virðingarfyllst,
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna
Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við hér:
[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum.