Ályktanir fulltrúafundar Þroskahjálpar 2024

Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar var haldinn laugardaginn 19. október síðastliðinn Grand Hótel Reykjavík.

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundinum.

Ályktanirnar eru einnig á auðlesnu máli.

 

Þjónusta við fatlað fólk á heimilum og í íbúðakjörnum


Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar krefst þess að fötluðu fólki verði tryggð sú þjónusta sem það þarf og á rétt á til að lifa sjálfstæðu, innihaldsríku og öruggu lífi.

Þjónustan þarf að vera fagleg og byggð á nýjustu hugmyndafræði sem og á gagnreyndum aðferðum sem eru viðurkenndar í þjónustu við fatlað fólk.

Fagleg og viðeigandi þjónusta er forsenda þess að fatlað fólk hafi tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra. Sá alvarlegi skortur á faglegri og viðeigandi þjónustu sem er allt of víða er ólíðandi og samræmist engan veginn ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga verða að setja í algeran forgang að bregðast við og bæta úr.

Auðlesið


Þjónusta við fatlað fólk á heimilum og íbúðarkjörnum


Ísland hefur samþykkt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Það þýðir að fatlað fólk á Íslandi á rétt á ákveðinni þjónustu.
Þjónustan er til þess að fatlað fólk geti lifað lífi sem er:

  • Sjálfstætt
  • Gott
  • Öruggt

 

Þjónusta við fatlað fólk á að nota góðar aðferðir sem virka vel fyrir fatlað fólk.

Fatlað fólk sem fær þessa þjónustu hefur sömu tækifæri og aðrir til að taka þátt í samfélaginu.

 

Á Íslandi er þjónusta við fatlað fólk ekki nógu góð.

Á Íslandi er þjónusta við fatlað fólk ekki nógu aðgengileg.

 

Það þýðir að á Íslandi er ekki farið eftir
samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Það er mjög slæmt og alvarlegt.

 

Þess vegna krefst Þroskahjálp þess að ríki og sveitarfélög bæti þjónustuna.

Þroskahjálp krefst þess líka að ríki og sveitarfélög bæti þjónustuna hratt og vel.

 

 

Aðgengi fatlaðs fólks að tækni og stafrænum heimi


Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar krefst þess að stjórnvöld axli ábyrgð á því að tækni, s.s. rafræn skilríki og gervigreind, sem notuð er til þess að veita aðgengi að mikilvægri þjónustu sé aðgengileg öllum.

Ábyrgðin á því að tæknin sé aðgengileg öllum og leiði ekki til mismununar er fyrst og fremst í höndum stjórnvalda. Sú ábyrgð felur í sér skylduna til að tryggja að tækni sem tekin er í notkun leiði aldrei til útilokunar, mismununar og jaðarsetningar fatlaðs fólks. Tæknilausnir eiga að vera og verða að vera í samræmi við mannréttindalegar skulbindingar íslenskra ríkisins sem m.a. er kveðið á um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Auðlesið


Stafrænt aðgengi fatlaðs fólks


Ísland hefur samþykkt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Það þýðir að stjórnvöld eiga að passa að tækni sé aðgengileg fyrir fatlað fólk.

 

Stjórnvöld eiga að passa að tækni
sem er notuð í mikilvægri þjónustu
sé aðgengileg öllum.

Til dæmis rafræn skilríki og gervigreind.

 

Stjórnvöld eiga líka að passa að tæknin mismuni ekki fötluðu fólki.

Það þýðir að tæknin má ekki útiloka fatlað fólk.

Tæknin á að vera þannig að fatlað fólk geti notað hana.

 

Þroskahjálp krefst þess að stjórnvöld fari eftir samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og passi að tækni sé aðgengileg fyrir fatlað fólk.

 

 

Ákall um átak í húsnæðismálum


Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar kallar eftir því að ríki og sveitarfélög ráðist í alvöru átak  um að byggja íbúðir handa fötluðu fólki.  Margt fatlað fólk hefur þurft að bíða  eftir að fá íbúð sem það á lagalegan rétt á árum saman og jafnvel í áratug.

Í nýútkominni skýrslu sem unnin var fyrir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið kemur fram að 452 fatlaðir einstaklingar eru nú á biðlistum eftir húsnæði. Í skýrslu sem unnin var fyrir ráðuneytið fyrir tveimur og hálfu ári kom fram að þessi hópur teldi 486 manns. Ef uppbygging húsnæðis fyrir fatlað fólk heldur áfram á óbreyttum hraða má ætla að  nokkrir áratugir muni líða þar til þessum biðlistum verður eytt.

Heimilið er ekki aðeins griðastaður fólks heldur augljós forsenda þess að það hafi raunveruleg tækifæri til að lifa sjálfstæðu lífi og njóta margvíslegra annarra mannréttinda, s.s. til einka-, félags- og fjölskyldulífs.

Auðlesið


Átak í húsnæðis–málum


Þroskahjálp krefst þess að ríki og sveitarfélög
byggi meira húsnæði fyrir fatlað fólk.

 

Fatlað fólk á rétt á að fá húsnæði.

Margt fatlað fólk hefur beðið mjög lengi eftir húsnæði.

Sumt fatlað fólk hefur beðið í meira en 10 ár eftir húsnæði.

 

Í dag bíða 452 fatlaðir einstaklingar eftir húsnæði.

Fyrir rúmlega 2 árum biðu 486 fatlaðir einstaklingar eftir húsnæði.

 

Þetta þýðir að það gengur mjög hægt að láta fatlað fólk fá húsnæði.

Þess vegna þarf að byggja mjög mikið húsnæði fyrir fatlað fólk.
Það þarf að byggja þetta húsnæði hratt.

Þá þarf fatlað fólk ekki að bíða svona lengi eftir húsnæði.

 

Það er mjög slæmt þegar fatlað fólk þarf að bíða lengi eftir húsnæði.

Húsnæði skiptir miklu máli svo fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi.

Húsnæði skiptir líka miklu máli fyrir önnur mannréttindi fatlaðs fólks.

Til dæmis:

  • Réttinn til einkalífs
  • Réttinn til félagslífs
  • Réttinn til fjölskyldulífs

 

 

Hækkun örorkulífeyris


Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar krefst þess að grunnörorkulífeyrir verði hækkaður hjá þeim hóp sem hefur engar aðrar tekjur en greiðslur frá TR.  Ætla má að um 63% af fólki með þroskahömlun og skyldar fatlanir hafi engar aðrar tekjur en greiðslur frá TR (uppl. frá 2019).

Nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi 1. sept. 2025.  Áætlað er að 95% örorkulífeyrisþega muni hækka í nýju kerfi en afar lítið er komið til móts við þann hóp sem minnst fær til framfærslu sinnar og hefur mjög takmörkuð eða engin tækifæri til að auka tekjur sínar vegna fötlunar og/eða ósveigjanlegs vinnumarkaðar. 

Auðlesið


Hækkun örorku–lífeyris

Margt fatlað fólk fær örorku-lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

Margt fatlað fólk fær enga aðra peninga til að lifa.

            Til dæmis fatlað fólk sem hefur ekki tækifæri á að vinna.

Þetta fólk hefur litla peninga til að lifa.

 

Á næsta ári byrjar nýtt örorku·lífeyris·kerfi.

Flestir fá þá meiri pening til að lifa af.

Nýja kerfið gerir ekki nóg fyrir fatlað fólk sem getur ekki unnið.

Þess vegna vill Þroskahjálp breyta kerfinu.

 

Þroskahjálp krefst þess að þetta fólk fái meiri peninga frá Tryggingastofnun ríkisins.